Hvernig er blóðþrýstingurinn?

Ég þurfti nýlega að fara til læknis út af einhverri umgangspest, sem ekki er í sjálfu sér í frásögu færandi.  Eftir að hafa rætt þau mál við lækninn og þegar heimsókninni var um það bil að ljúka, spyr læknirinn mig hvort blóðþrýstingurinn hafi verið mældur nýlega.  Ég sagði að það væru nú ábyggilega komin 2 ár síðan síðast, en hins vegar hefði ég alltaf verið með fínan þrýsting.  Reyndar hefði hann verið svona í efri mörkum þá, enda mikið stress og álag þá um stundir. 

Læknirinn tók sig til og mældi, tók síðan af sér hlustunarpípuna, og sagði:  Ásgeir, þú ert með hættulega háan þrýsting, sem verður strax að bregðast við.  Ég sagði við hann að þetta væri nú örugglega bara eitthvað tilfallandi, enda hefði ég verið í erilsömu álagsstarfi, þar til fyrir nokkrum mánuðum.  "Svona há gildi verða ekki skýrð með stressi og álagi" sagði þá minn maður.  Þrýstingur af þessu tagi (195/115) eru það sem kalla má "silent killer" ef ekkert er að gert.  Þetta er ávísun á heilablóðfall.  Í framhaldinu var svo skrifaður út lyfseðill, pillurnar virðast virka á tilætlaðan hátt og allt að verða eðlilegt aftur. 

Ég hvet alla til að láta mæla blóðþrýstinginn reglulega.  Flestöll apótek bjóða viðskiptavinum sínum upp á mælingu, svo er auðvitað fullt af vinnustöðum sem hafa trúnaðarlækni og þangað er auðvelt að sækja slíka þjónustu.  Að ekki sé nú minnst á heilsugæslustöðina eða heimilislækninn.  Háþrýstingur er algjörlega einkennalaus, og lítið er vitað um orsakir hans.  Hann hefur ekkert endilega að gera með holdafar eða slíka þætti, heldur getur hann verið himinhár hjá hinum mestu mjónum.  Ekki draga að láta mæla - það er mikilvægt að hafa þrýstinginn í lagi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband